Thursday, August 6, 2009

Reisugill skálans

Til stendur að flytja "nýja" skálann upp í Tindfjöll helgina 15.-16. ágúst. Að því tilefni er félögum í Ísalp boðið að koma við og skoða skálann, fá sér hressingu, rifja upp gamla tíma eða láta sig dreyma um ævintýraferðir í Tindfjöll á vetri komandi.

Stjórnin grillar pulsur og býður upp á bjór og gos.

Skálinn stendur á planinu á Kirkjusandi, þar sem endurbyggingin hefur farið fram.

Veislan hefst kl 20:00 á þriðjudagskvöldið 11.ágúst og við skorum á sem flesta að láta sjá sig

Vika í flutning

Jæja þá er þetta að klárast.
Nú vantar í raun bara strompinn og reykrörið og þá er skálinn klár til flutnings.
Planið er að henda þessu í um helgina og prufukeyra kamínu og reykrör. Það má því búast við því að skálinn verði klár til flutnings á tíma.


Thursday, July 23, 2009

Lokafrágangur

Þó lítið sé bloggað þessa dagana er hins vegar allt á fullu í skálanum. Við nálgumst óðfluga lok verkefnisins en stærstu atriðin sem er verið að klára þessa dagana er reykrörið úr skálanum og eldhúsáhöld. Læt fylgja með nokkrar myndir sem sýna hversu gríðarlega flottur skálinn er orðinn.
Eins og sést er allt klárt að utanverðu fyrir utan einn glugga. Eins er búið að græja stálgrind sem skálinn situr á og mun einfalda flutninginn ansi mikið.


Eldhúskrókurinn er klár en diskar og glös eru á leiðinni

Kojurnar voru endursmíðaðar í sömu mynd og áður.

Stemning á vinnukvöldi!



Friday, July 3, 2009

Gamli skálinn

Þessar myndir eru að finna í bókinni Fjallamenn. Sýnir skálann eins og hann var upprunalega.


Wednesday, July 1, 2009

Glerið í

Í gær var mikið fjölmenni mætt til smíða og mikið gekk á.
Glerið er komið í skálann fyrir utan stafninn.
Eldhúskrókur er svo gott sem tilbúinn
Kojurnar eru komnar upp.
Millihurðin er tilbúin

Það fer því að minnka allverulega verkefnin sem eru eftir.






Tuesday, June 30, 2009

Vinnuferð í Tindfjöll

Fjölmennt var upp í Tindfjöll um helgina þar sem unnið var við grunn skálans. Slétt var úr fletinum sem skálinn sest ofan á og mikið af grjóti var flutt að staðnum sem verður svo notað til að hlaða að skálanum í ágúst. Þvílík rjómablíða var uppfrá og ekki oft sem það blæs ekki á þessum stað.

Ekki slæmt veðrið sem hópurinn fékk. Við þökkum Miðdalsmönnum kærlega fyrir afnot af skálanum
Hlynur Sk sýnir ljósmyndara hvernig akkerin sem verða fest við grindina virka.
Ungmennafélagsandinn var gríðarlegur

Nafnarnir Hlynur og Hlynur slétta eins og enginn væri morgundagurinn

Friday, June 26, 2009

Kojur og eldhúskrókur

Vinna við kojur og eldhúskrók fór af stað á þriðjudaginn. Skálinn er svo gott sem tilbúinn að utan og er fókusinn kominn á það sem upp á vantar innandyra. Mikið er pælt í kyndingarmálum þessa dagana en valið stendur á milli olíukyndingar og hefðbuundnar viðarkabyssu.

Um helgina er svo planið að undirbúa undirstöður skálans í Tindfjöllum og er búið að stefna fjölda manns þangað.






Thursday, June 18, 2009

Endurgerð að klárast!!!

Við höfum verið heldur latir að uppfæra síðuna undanfarið en það er engan veginn vegna þess að lítið hefur verið að gerast. Þvert á móti hefur verið smíðað og smíðað og eins og sést á myndinni þá er skálinn að klárast. Hver hefði trúað því!
Guttormur hefur stjórnað verkinu eins og herforingi og eytt miklum tíma niðrá Kirkjusandi.
Hann mun væntanlega ljúka smíðinni utanhús á morgun.
Reyndar er sitthvað smálegt eftir og það mun vonandi klárast áður en skálinn fer aftur upp til fjalla um miðjan ágúst.




Thursday, May 14, 2009

Gluggar

Fyrstu gluggarnir fóru í skálann í dag, sjá myndir




13.maí

Unnið hefur verið áfram síðustu daga og mikið áunnist.

-Búið er að klæða alla útveggi með panel
-Búið er að klæða forstofu með panel
-Þakið er klárt,þ.e. síðasta platan komin á og búið að undirbúa mæninn
-Vinnupallar voru rifnir í gær
-Loftið á forstofunni var klætt með panel
-Búið er að einangra loftið

Framundan er að klæða loftið með panel og henda gluggunum í en þeir eru komnir í hús
Svo fer að styttast í að nýjar kojur verði smíðaðar og skálinn verði klæddur að utan


Gutti að leggja lokahönd á panelinn á loftinu

Hér sést hvernig forstofan er farin að líta út

Orðið aðeins hreinlegra í kringum skálann eftir að vinnupallarnir voru rifnir. Nú sést betur upprunalegt útlit skálans.

Monday, May 11, 2009

Góður vinnudagur í gær

Á laugardag voru Guttormur og Árni mættir fyrir allar aldir ásamt félaga Árna. Þeir klæddu með panel af miklu kappi ásamt því að tvöfalda kraftsperrurnar (skammbitana) í loftinu. Nú hafa þeir lokið við að klæða alla veggi skálans fyrir utan forstofuna og gaflinn á svefnloftinu. Einnig hafa þeir lokið við að endurnýja grindarbita í kringum stóra gluggann á gaflinum en þeir reyndust frekar fúnir þegar glugginn var tekinn úr. Eftir hádegi bættust Kristján Guðni og Hlynur við eftir að hafa keypt ull og notuðu hana til að einangra loftið í skálanum. Næst er að halda áfram að klára að klæða forstofuna með panel og svo bíður loftið eftir sömu meðferð.





Thursday, May 7, 2009

Panell á veggi

Í dag var smíðað áfram og nú er panellinn kominn á hluta skálans. Sjá myndir


Wednesday, May 6, 2009

Skálinn einangraður

Vinna hélt áfram í gærdag og gærkvöldi og nú er staðan þannig að gólfið er klárt og verið er að einangra útveggi skálans.



Vinnan heldur áfram

Í síðustu viku var unnið tvö kvöld.
Á þriðjudaginn var farið í öflun aðfanga eftir að hafa leitað tilboða og reynt að sníkja efni eftir fremsta megni. Við keyptum mikið af efni, gólffjalir, einangrun, girði, plast og fleira sem unnið verður úr á næstu vinnukvöldum. Hallgrímur samdi um efnið og á hann þakkir skilið fyrir það og einnig Valli sem lánaði stóran sendibíl í flutningana. Guttormur fór til verkstæðisins sem smíðar gluggana og þeir eru klárir nema hvað að hann bað þá um að járna gluggana líka. Eftir efniskaup og sendiferðir var hafist handa við gólfið. Borðin sem höfðu verið negld ofan á bitana til bráðabirgða voru fjarlægð og rusl og drasl hreinsað þaðan sem einangrunin á að fara. Einnig útbjuggum við festingar á alla gólfbita úr þykku girði sem notaðar verða til að festa skálann niður á undirlagið sitt eftir flutning.
Á fimmtudaginn var haldið áfram með vinnu við gólfið. Botninn var þéttur (þ.e. klæðningin sem einangrunin kemur ofan á) þannig að raki komist út en mjög takmarkað ætti að geta skafið inn í einangrunina. Næst var einangrun sett í allt gólfið. Þegar því var lokið var hafist handa við að leggja gólffjalirnar sem eru 20 mm þykkar og 90 mm breiðar og koma ýmist í 3,6 eða 4,2 metra lengd. Fjalirnar eru með tappa og nót og eru lagðar svipað og parket en eru þar að auki negldar í gegnum tappann þannig að naglarnir sjást ekki. Ágætlega gekk með gólfið og náðist að leggja frá vegg og fram í hurð.








Thursday, March 5, 2009

Loksins Loksins

Jæja þá er vinnan við skálann aftur komin af stað eftir langa og góða pásu. Í gærkvöldi var þakið klætt með bárujárni og klárast sú vinna eftir helgi. Næst er svo að henda nýjum gluggum í og klæða restina af skálanum með bárujárni. Við gætum reyndar þurft að bíða aðeins því gluggarnir eru enn í smíðum.

Svar hefur loksins fengist frá Húsafriðunarnefnd um styrk en þar var ekkert að fá þetta árið. Við gerðum okkur miklar vonir um þann styrk og því setur þetta öll okkar plön um að klára skálann í uppnám.
Hugmyndin er því að leita á náðir félaga Íslenska Alpaklúbbsins um framlög til endurgerðarinnar svo hægt verði að klára skálann í sumar. Meiri upplýsingar um það koma innan skamms
Að neðan eru myndir frá gærkvöldinu